Beinagrind og nakin kona

16. ágúst 2019

Beinagrind og nakin kona

Þöggun, verk eftir Viktoríu Guðnadóttur

Nú stendur yfir sýning í Neskirkju sem er hluti af dagskrá Hinsegin daga 2019. Sýningin opnaði 11. ágúst s.l. og mun standa fram á haust.

Kjörorð Neskirkju er Opin kirkja í Vesturbænum. Svo sannarlega stendur hún undir kjörorðinu með því að tengjast sýningunni í Þjóðminjasafninu sem kallast Regnbogaþráðurinn. Sú sýning er eiginlega sýning í sýningu, þ.e.a.s. í grunnsýningu Þjóðminjasafnsins sem svo er nefnd: Þjóð verður til – Menning og samfélag í 1200 ár.

Tema Regnabogaþráðarins er að saga homma og lesbía hafi verið falin í þjóðarsögunni og hún er þar af leiðandi á vissan hátt falin í grunnsýningu Þjóðminjasafnsins. Þar eru engir gripir sem minna á þátt hinsegin fólks eða menningar þess í þjóðarsögunni. Hins vegar er í sérstakri sýningarskrá vitnað til einstakra gripa og sýningamengja í grunnsýningunni og margvíslegar spurningar lagðar fram sem þeim tengjast beint eða óbeint. Svo dæmi sé tekið: Baðstofan íslenska – baðstofumenningin. Þar var margt fólk í litlu rými. Hún var á vissan hátt endurspeglun samfélagsins, þess besta og þess versta. Talið er að fólk hafi sofið nakið. Þá er tengt við kossasiðinn á 20. öld þegar karlar og konur og þá aðallega til sveita, heilsuðust og kvöddust með kossi. Talið að sá siður hafi „farið í felur“ eða aflagst þegar þjóðin varð upplýstari um samkynhneigð og fólk  (karlar) tengdi hana við afbrigðileika og földu hann snarlega.

Eini sýnilegi gripurinn – ef svo má segja – úr sögu hinseginfólks á færibandi sögunnar (sem er frábær hugmynd eða gjörningur) á grunnsýningu Þjóðminjasafnsins, er lúinn regnbogafáni.

En hvernig tengjast þessar tvær sýningar, önnur í Neskirkju og svo hin nánast handan við hornið í Þjóðminjasafninu?

Það eru þrír listamenn sem sýna í Neskirkju verk sín á þremur veggjum. Viktoría Guðnadóttir sýnir verkið Þöggun, Hrafnkell Sigurðsson sýnir verkið Upplausn og Logn Draumland sýnir verkið Hinsegin feitir líkamar, staðfesting á tilvist.

Þöggun, verk Viktoríu tengist beinagrind úr heiðni sem sjá má á grunnsýningu Þjóðminjasafnsins. Beinagrindin er í hliðarstellingu, sem listakonan sjálf liggur oft í og finnur þar með samsemd með hinni látnu konu hvers hold huldi eitt sinn þau bein er nú liggja undir upplýstu gleri við Suðurgötu 41. Ýmsar vangaveltur um eiganda þessarar beinagrindar eru hafðar eftir listakonunni í sýningarskránni eins og hver kynhneigð hennar hafi verið. En allt hvílir í þögninni.

Beinagrindin í hliðarstellingu

Verk Hrafnkels, Upplausn, felur í sér heimspekilegar og listfræðilegar vangaveltur um það hvort hægt sé að leysa upp veruleikann og mannlega tilveru – ekki auðleyst mál. En verkið er engu að síður athyglisverð tilraun. Tenging þessa verks við Regnbogaþráðinn er ekki sterk en þó má vefa það saman við sitthvað sem segir í spurningum og vangaveltum í texta sýningaskrárinnar um gripi og gripamengi.

Að lokum er það verkið Hinsegin feitir líkamar, staðfesting á tilvist, eftir Logn Draumland. Hán teflir fram þeim sem báru skömm hinseginleikans og skömmina sem þröngvað er upp á feita líkama í fortíð sem nútíð. Hér má lesa inn í hver skilgreinir fegurð og ljótleika, hver markaðsvæðir þær eigindir og stýrir í smáu sem stóru. Sömuleiðis má sjá almenna tengingu við texta sýningaskrárinnar og leiftur úr líflegu sjálfsmyndasafni hvunndagsfólks og leyndra ásta þess –  og búlduleit andlit hefðarfólks fyrri alda á málverkum með stromphatta og pípukraga, bleikglært á hörund í gljásvörtum alklæðnaði sem faldi líka þennan voðalega líkama, sköpunina  – svo dæmi séu nefnd.

Hluti úr verki Logns

Margar kirkjur eru ekki aðeins tilbeiðslustaðir heldur og almenn menningarhús. Það hefur tekist vel til í Neskirkju að sameina þetta tvennt. Kristin trú, kristin menning, tengist bæði innbyrðis og menningarstraumum, afkimum, falinni menningu og augljósri. Í sögu kristninnar þekkist það að trúin fór í felur á tímum ofsókna og hatursorðræðu. Og gerir enn.

Kirkjan er öllum opin, var eitt sinn sagt. Og það á enn við. Þess vegna er hún ekki bara svona heldur og líka hinsegin.

Færiband sögunnar - kannast þú við þig þar?

Upplausn, eftir  Hrafnkel Sigurðsson
  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Viðburður

  • Menning

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju